Um verkefnavökuna 2013

Verkefnavaka, sú fyrsta í Háskóla Íslands, var haldin á Mvs. 21. mars 2013

að frumkvæði ritvers Mvs og Náms- og starfsráðgjafar.

Hápunktur vökunnar var verðlaunaveiting í ljóða- og örsagnasamkeppni kvöldsins. Úrslit voru tilkynnt og verðlaun veitt kl. 22.32. Formaður dómnefndar var Ragnar Ingi Aðalsteinsson en talsmaður nefndarinnar Baldur Sigurðsson. Tæplega 30 verk bárust og sjö höfundar hlutu verðlaun. Þórður Helgason gaf þrjú eintök af Þórðarbók á móti páskaeggjum og ljóðabókinni Gengið á gúmmískóm. Starfsmenn sendu inn góð verk en stúdentar einir þóttu gjaldgengir til verðlauna.

Sýnishorn af nokkrum verkum

Ritstífla

Rúnum ristur
leiðbeinandinn
tekur af sér
gleraugun
og segir kankvís
veistu
ég hef bara aldrei
lent í ritstíflu
en eins og þú
lýsir þessu
hljómar það
dásamlega

(Sveinn Yngvi Egilsson, fjarstaddur utan verðlauna)

Kvöldvaka 2013

Á kvöldvöku við kveiktum bál,
sem kætir hjörtun okkar.
Frestunarpestin, fögur orð,
og fólkið hingað lokkar.

Fundið get hér flest allt gott,
fæ nærveruna þína,
og ráð frá góðum ráðgjöfum,
í ritgerðina mína.

Ódauðlega doðranta,
dömur skapa saman.
Nú vantar bara varðeldinn,
og vínið! Þá er gaman!

(Embla Rún Hauksdóttir, 1. verðlaun)

Maðurinn í næsta húsi

Einu sinni var maður sem fór ekki vikulega í Bónus að versla í matinn.

Hann bragðaði aldrei kaffi og keypti aldrei sumarblóm. Hann átti enga skó, fékk aldrei plástur þegar hann hruflaði á sér hnéð og talaði aldrei í símann. Hann veit ekki hvernig það er að sitja við gluggann á rigningardegi og horfa á vindinn dansa við lauf háu blæasparinnar. Hann hefur ekki einu sinni heyrt drunurnar í strætó þegar hann erfiðar upp götuna, síðla dags, fullur af vinnulúni fólki. Samt lifði hann og dó í næsta húsi við mig.

(Arnhildur Hálfdanardóttir, 6. verðlaun)

Ár nautsins

Korter í miðnætti
sveipaði nautið um sig rauðri skikkjunni
smeygði sér í bleik gúmmístígvélin
og hélt út í nýja árið
   - ár ögrana og nýs upphafs

(Elva Björg Einarsdóttir, starfsmaður Kemst)

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is